Saga hússins

Túngata 6

Talið er að Einar Jónsson stúdent, hafi manna fyrstur byggt á lóðinni árið 1835. Einnig átti Einar lóð sunnan götunnar og var þar brunnhús.

Árið 1850 eignaðist Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari húsið. Hann var faðir Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds. Þórður reisti nýtt hús á lóðinni, mun stærra. Árið 1875 lét kjörsonur Þórðar, Lárus Edv. Sveinbjörnsson dómstjóri, rífa húsið og byggði á lóðinni húsið sem enn stendur.

Lárus Edvard Sveinbjörnsson var fæddur 31. ágúst 1834 í Reykjavík. Hann var kjörsonur Þórðar, en seinni kona hans var Kristine Cathrine Lauritzdóttir, móðir Lárusar Edv. Faðir hans var Hans Edvard Thomsen, verslunarstjóri í Reykjavík og víðar. Lárus Edv. varð stúdent 1855 og cand. juris frá Hafnarháskóla 15. júní 1863. Fyrstu árin eftir að hann lauk námi var hann sýslumaður í Árnessýslu, síðan í Þingeyjarsýslu. Skipaður bæjarfógeti í Reykjavík og jafnframt sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og gegndi því embætti til ársins 1878. Síðan yfirdómari og dómsmálaritari í landsyfirrétti og háyfirdómari frá 1. maí 1889 til ársins 1908. Lárus Edv. sat á Alþingi í meira en áratug og var bankastjóri Landsbanka Íslands frá stofnun hans, 24. okt. 1885 til 1. maí 1893. Hann vann mörg önnur trúnaðarstörf og skrifaði bækur um lögfræði. Árið 1868 kvæntist hann Jörgine Margrethe Sigríði Guðmundsdóttur Sveinbjörnsson, fæddri 25. apríl 1849. Faðir hennar var faktor hjá Lefoliiverslun á Eyrarbakka. Sonur þeirra var Jón Sveinbjörnsson konungsritari. Lárus Edv. lést 7. jan 1910 í Reykjavík. Jörgine Margrethe lést 6. desember 1915.

Ásta Sigríður, dóttir Lárusar og Jörgine, giftist Magnúsi Einarssyni dýralækni sem er skráður eigandi hússins í desember 1915. Magnús var fæddur 16. apríl 1870 á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Foreldrar hans voru Einar Gíslason, alþm. og hreppstjóri, og Guðrún Helga Jónsdóttir, bónda á Gilsá í Breiðdal, Einarssonar. Magnús tók upp ættarnafnið Einarson. Í bókinni „Íslenskir Hafnarstúdentar“ segir að hann hafi verið fyrsti dýralæknir á Íslandi sem hafði fullnaðarpróf í þeirri grein. Magnús kom talsvert við sögu stjórnmála og var einn af stofnendum Íhaldsflokksins árið 1924. Hann andaðist í Reykjavík 2. október 1927.

Kofoed Hansen garðyrkjufræðingur hannaði garðinn sem af gömlum myndum má sjá að hefur verið mjög fallegur. Aðeins eitt tré stendur eftir, álmur sem fyrir nokkrum árum var valinn tré ársins af Reykjavíkurborg.

Eftir lát Magnúsar bjó ekkja hans, Ásta Einarson, áfram í húsinu. Hún stundaði píanókennslu og hafði lært hjá frú Melsted en síðan fór hún til Edinborgar og fullnumaði sig þar. Hún seldi húsið seint á fjórða áratugnum.

Seint í nóvember 1940 gerðist það að deild frá breska hjálpræðishernum hugðist byggja sér hús á lóðinni. Ekki höfðu Bretarnir sótt um byggingarleyfi en voru búnir að grafa skurð og byrjaðir að slá upp fyrir húsgrunni þegar að var komið. Ekkert varð af húsbyggingunni því að ríkisstjórnin stöðvaði framkvæmdir.

Árið 1941 er Elitric hf. með starfsemi í húsinu, innflutning og sölubúð rafmagnstækja. Þá var gerður útstillingagluggi á suðvesturhorn hússins.

Hannes Þórðarson og Ólafur Jónsson voru eigendur að Elitric. Hekla kaupir síðan umboðin sem Elitric var með. Um tíma var Ólafur Jónsson með íbúð í risi hússins en síðan var það tekið undir kaffistofu og skrifstofur.

Í mati frá árinu 1943 kemur fram að búið er að vírleggja veggi á herbergjum og múrhúða. Loft og veggir í eldhúsi voru reyrlögð og múrsléttuð þegar húsið var byggt.

Steindór Haarde og Gunnar Rósinkranz, sem báðir eru verkfræðingar, taka húsið á leigu árið 1978 fyrir verkfræðistofuna „Vægi“. Í árslok 1984 kaupir Steindór Haarde húsið ásamt Ágúst Þór Jónssyni verkfræðingi. Árið 1986 byggðu þeir húsið í Grjótagötu 7.  Vel hefur tekist með þessa byggingu og þegar komið er inn í húsið minnir það óneitanlega á vel uppgert gamalt hús. Gengt er milli húsanna Grjótagötu 7 og Túngötu 6 um glerskála sem gerður var á milli þeirra.

Árið 1986 flutti Ydda ehf. í Túngötu 6 og var með starfsemi sína á neðri hæðinni. Uppi voru verkfræðistofur Steindórs Haarde og Ágústar Þórs Jónssonar.

Árið 2002 flutti fjárfestingafélagið Baugur Group hf. starfsemi sína í húsin. Baugur Group hf. var með starfsemi í húsunum fram til ársins 2009 þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.

Er það einróma álit þeirra sem starfa í húsinu eða eiga þar leið um að einstaklega góður andi ríki í þessu fallega gamla húsi, hverju sem því kann að valda.

(sjá meðal annars :http://www.mbl.is/greinasafn/grein/656597/ )